Múlalundur

Múlalundur vinnustofa SÍBS er öflugt þjónustu- og framleiðslufyrirtæki í Mosfellsbæ sem rekið er af SÍBS í því skyni að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsorku. Þar starfar saman fjölbreyttur hópur fólks með og án örorku og eftirspurn eftir störfum er mikil. Kaup á vörum og þjónustu af Múlalundi hafa bein áhrif á framboð starfa og eru einföld og árangursrík samfélagsverkefni. Flestir fá vörurnar sendar til sín daginn eftir séu þær til á lager, annars strax að verki loknu. Starfsmenn eru tæplega 50 í um 25 stöðugildum en um 80 manns gefst færi á að spreyta sig árlega við störf á Múlalundi.
Tekjur Múlalundar koma að mestu af sölu á vörum og þjónustu og er það nær einsdæmi í starfsemi sem þessari. Múlalundur selur eigin framleiðslu og vörur frá innlendum og erlendum birgjum, auk þess að taka að sér fjölbreytt verkefni sem oft eru mannfrek. Múlalundur býður skrifstofuvörur af ýmsu tagi en einnig er um að ræða aðra vöru og þjónustu fyrir viðskiptavini um allt land. Sérframleiðsla er stór hluti af starfsemi Múlalundar þar sem vara er hönnuð í samráði við viðskiptavini og sniðin að þörfum þeirra.
Saga Múlalundar nær allt aftur til ársins 1959 þegar sjúklingasamtökin SÍBS stofnuðu vinnustofu fyrir öryrkja sem áttu í erfiðleikum með að fá störf við hæfi eftir endurhæfingu. Frá upphafi hafa viðskiptavinir Happdrættis SÍBS verið bakhjarl Múlalundar með kaupum á happdrættismiðum.

Hópmynd 2023

Viltu vinna á Múlalundi?

Á Múlalundi starfar fjölbreyttur hópur fatlaðs og ófatlaðs starfsfólks saman í þjónustu við viðskiptavini. Margir starfsmenn Múlalundar eru öryrkjar með fjölbreyttar líkamlegar og andlegar áskoranir og fá á Múlalundi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í íslensku atvinnulífi. Múlalundur er stærsta og elsta vinnustofa öryrkja á landinu með tæplega 50 fasta starfsmenn, þar af um 40 öryrkja sem ýmist eru ráðnir í tímabundna starfsþjálfun eða í ótímabundin störf. Flestir eru í hlutastörfum.
Því til viðbótar býður Múlalundur í samvinnu við Vinnumálastofnun, fjórum einstaklingum á mánuði, öryrkjum eða langtímaatvinnulausum, að taka þátt í fjögurra vikna starfsprufum. Þar fær fólk, sem margt hvert hefur verið lengi frá vinnumarkaði, tækifæri til að vera hluti af vinnustað í fjórar vikur. Í lok tímans er hæfni umsækjandans til að vera virkur þátttakandi á vinnustað metin með formlegum hætti. Upplýsingarnar og reynslan eru notaðar af ráðgjöfum Vinnumálastofnunar og einstaklingunum sjálfum til að hjálpa til við að koma viðkomandi einstaklingi í áframhaldandi vinnu á Múlalundi eða annars staðar í samfélaginu. Milli 30 og 40 einstaklingar á ári taka þátt í starfsprufunum.
Alls fá því um 80 manns á ári með skerta starfsorku, tækifæri til að spreyta sig á Múlalundi um lengri eða skemmri tíma.

Umsókn um störf á Múlalundi

Starfsmenn koma til starfa á Múlalundi með tvennum hætti:

  • Umsækjendur með skerta starfsorku sem óska eftir launuðum störfum eða þátttöku í fjögurra vikna starfsprufum hafa samband við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun sem hjálpa til með umsóknir og sjá um að koma þeim til Múlalundar. Sé starfsmaður metinn með næga vinnugetu til starfa á Múlalundi er hann samþykktur inn á biðlista. Liðið getur langur tími þangað til starf losnar sem hentar viðkomandi umsækjanda.
  • Aðrir starfsmenn eru ráðnir af framkvæmdastjóra, oft í kjölfar auglýsingar.

Starfsfólk Múlalundar fær laun og réttindi í samræmi við almenna kjarasamninga stéttarfélaga við Samtök atvinnulífsins. Laun öryrkja miðast einnig við samkomulag ASÍ og Hlutverks samtaka um vinnu og verkþjálfun frá árinu 2006 sem kveður á um að laun skuli taka mið af starfsgetu. Launin eru hugsuð sem viðbót við aðrar greiðslur vegna örorku.

Vörur og þjónusta

Í stuttu máli býður Múlalundur upp á allt fyrir skrifstofuna auk þess að taka að sér ýmiss konar verkefni sem kalla á sérvinnslu og handavinnu.

Múlalundur þjónustar viðskiptavini sína með ýmsum hætti:

⦁ Sölu á framleiðsluvörum Múlalundar sem fáanlegar eru strax af lager
⦁ Sölu á aðkeyptum vörum frá innlendum eða erlendum birgjum
⦁ Plöstun – á bókum og pökkum ýmiss konar
⦁ Sérvinnslu – þar sem framleitt er eftir óskum viðskiptavina
⦁ Fjölbreyttum verkefnum – sem oft krefjast ýmiss konar handavinnu

Múlalundur framleiðir plast- og pappavörur fyrir skrifstofur ásamt því að flytja inn og selja mikið úrval skrifstofuvara í vinsælustu vörumerkjum landsins. Hér er um að ræða Egla bréfabindi, lausblaðabækur, dagatöl, gatapoka, plastvasa, glærar kápur, hulstur, klemmuspjöld, tilboðsmöppur, ráðstefnu- og fundarmöppur, matseðlakápur, hótelmöppur, heftara, gatara, skrifstofupappír, penna og skrúfblýanta svo fátt eitt sé nefnt.
Þá tekur Múlalundur að sér fjölbreytt verkefni sem krefjast handavinnu, oft tengd ýmiss konar pökkun og flokkun og má þar nefna t.d. frágang á funda- og ráðstefnugögnum eða að líma strikamerki og íslenskar leiðbeiningar á vörur. Nýverið festi Múlalundur kaup á glæsilegri plöstunarvél þar sem plasta má bækur, tímarit og flest annað í miklu magni á skömmum tíma.
Múlalundur sérhæfir sig í framleiðslu á sérprentuðum lausblaðabókum þar sem möguleiki er á fimm lita prentun og útliti sem setja hugarfluginu engin takmörk. Jafnframt hefur aukist mikið að setja í plast sérprentaðar borðmottur og aðra auglýsingafleti sem er síðan notað í verslunum, á skrifborðum starfsfólks og víðar. Við bjóðum upp á margskonar sérvinnslu þar sem við framleiðum í takt við hugmyndir frá viðskiptavinum. Það er flest hægt á Múlalundi og við hvetjum alla til að kynna sér þá möguleika sem við höfum upp á að bjóða.

Matseðla-, hótel-, kór- og fundarmöppur.

Hvernig kaupi ég vörur frá Múlalundi?

Viðskiptavinur pantar => Við sendum vöruna samdægurs eða næsta virka dag.
Öll fyrirtæki kaupa skrifstofuvörur. Með kaupum á skrifstofuvörum frá Múlalundi skapar þú störf fyrir fólk með skerta starfsorku.
Múlalundur starfrækir glæsilega verslun í húsnæði fyrirtækisins á lóð Reykjalundar í Mosfellsbæ. Þangað geta allir komið og keypt vörur auk þess að ræða við starfsfólk um sérvinnslu og þær þarfir sem nauðsynlegt er að uppfylla.
Á heimasíðu Múlalundar má finna vefverslun þar sem viðskiptavinir geta valið úr hundruðum vara. Hægt er að panta sérvinnslu eða aðrar vörur með því að koma á staðinn, senda tölvupóst á mulalundur@mulalundur.is eða hringja í síma 5628500 og við tökum vel á móti þér.

Hvernig styrki ég starfsemi Múlalundar?

Hægt er að styðja við starfsemi  Múlalundar með beinum fjárframlögum inn á reikning Múlalundar og með kaupum á vörum og þjónustu

⦁ Kennitala: 470269-3759
⦁ Bankareikningur: 0113-26-5300

Styrkur til Múlalundar veitir skattaafslátt

Heimilt er að draga frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri, einstakar gjafir og framlög til hvers konar viðurkenndrar líknarstarfsemi, sbr. 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 og fellur Múlalundur þar undir.

Umhverfismál

Framleiðsluvörur Múlalundar eru margar ýmist framleiddar úr pappa og/eða plasti, oft með áföstu járni eða klemmu. Plastið er evrópskt plast og pappinn er endurunninn. Plastið er gæðaplast sem bæði má endurvinna og nota í leikföng og aðrar vörur ætlaðar ungabörnum.

Mikilvægt er að tryggja að þegar notandi hættir að nota vörur Múlalundar þá fari þær í endurvinnslu. Ef varan samanstendur af pappa og plasti er gott að nota dúkahníf, opna inn í vöruna og henda pappanum sem oft er inni í vörunni í pappagám og plastinu í plastgám.

Ekki þarf að fjölyrða um muninn á umhverfisfótspori vöru sem framleidd er í Mosfellsbænum annars vegar eða í fjarlægum löndum hins vegar til notkunar á Íslandi. Markmið Múlalundar er að framleiða gæðavörur sem endast lengi sem einnig dregur úr umhverfisáhrifum.

Skrifstofupappír Múlalundar heitir Navigator og er framleiddur í Portúgal af Navigator fyrirtækinu.  Hann uppfyllir kröfur EU Ecolabel og FSC umhverfismerkjanna á sviði umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar. Hann hefur einnig staðist gæðakröfur BLI sem staðfestir  afburða gæði pappírsins. Hér má sjá pappírinn okkar.

Merki Múlalundar

Merki Múlalundar var hannað árið 1986 af Gísla B. Björnssyni teiknara.  Gísli hannaði fjöldan allan af fyrirtækjamerkjum á 60 ára starfsferli frá 1960 til 2020 og var árið 1982 gerður að heiðursfélaga FÍT.  Mörg merkjanna eru enn í notkun áratugum seinna og má þar nefna merki SÍBS, Hjartaheilla og fleiri.

Upphafið

Árið 1959 skrifaði Guðmundur Löve, einn af forsvarsmönnum SÍBS, grein í Reykjalund ársrit SÍBS þar sem hann lýsir tilgangi með opnun og starfrækslu Múlalundar.  Áhugavert er að lesa greinina sem gæti allt eins verið skrifuð í dag eins og fyrir um 70 árum.